Velkomin á heimasíðu Geitfjárræktarfélags Íslands. Félagið byrjaði að byggja upp þessa síðu í lok árs 2018 og enn er mikið starf framundan við að setja inn myndir, greinar, fundargerðir, hafraskrá svo aðeins fátt eitt er upptalið.
Geitfjárræktarélag Íslands, (GFFÍ), var stofnað 22. nóvember 1991 í Bændahöllinni. Þá taldi geitastofninn um 350 dýr. Íslenski geitastofninn er búfjárstofn sem telst í útrýmingarhættu eftir skilgreiningu FAO, en til að vera utan hættu þyrftu að vera að lágmarki 4200 kvendýr en helst 7800 til að stofninn sé stöðugur. Árið 2017 taldi stofninn rúmlega 1300 dýr, kven- og karldýr.
Tilgangur Geitfjárræktarfélags Íslands er að stuðla að verndun og viðhaldi íslenska geifjárstofnsins og vinna að ræktun hans og að leita leiða til að bæta nýtingu og auka verðmæti afurða.
Geitur eru nytjadýr og af þeim fæst: Mjólk, kjöt, innmatur, geitafiða, stökur, horn og klaufir. Geitamjólk inniheldur öðruvísi fitu og prótín heldur en kúamjólk og hentar oft mannverum betur heldur en kúamjólkin. Kjötið er magurt og bæði prótín- og járnríkt og er hið ágætasta til neyslu sem steik, pylsur og aðrar kjötvörur. Geitafiðan heitir á erlendum tungumálum kasmír og verður hið mýksta band. Mör geita nýtist vel til áburðar- og sápugerðar.
Til að ýta undir sérstöðu geitaafurða stóð GFFÍ fyrir samkeppni hjá nemum Listaháskóla Íslands vorið 2018 um merki sem félagar í GFFÍ sem framleiða geitaafurðir geta merkt vörur sínar með. Fyrstu verðlaun hlaut Sóley Tómasdóttir og kom merkið í notkun á geitaafurðir í lok árs 2018.