Námskeið um geitfjárrækt – fjarnámskeið

Námskeið um geitahald á vegum LBHÍ

Nú gefst geitabændum tækifæri að sækja fjarnámskeið um geitahald á vegum endurmenntunar LBHÍ 14. – 30. júní 2021. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan fáiði nánari upplýsingar um námskeiðið. Það verður m.a. fjallað aðbúnað geita, geitaafurðir og skýrsluhaldið Heiðrúnu og margt fleira. Skráið ykkur og fræðist!

Ný reglugerð; heimaslátrun

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um slátrun í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum sem heimilar bændum að slátra sauðfé og geitum á búunum sjálfum og dreifa á markaði. Slík framleiðsla og dreifing hefur hingað til verið óheimil. Í reglugerðinni er kveðið á um að dýralæknar sinni heilbrigðisskoðunum bæði fyrir og eftir slátrun og mun kostnaður þess greiðast úr ríkissjóði.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: 

„Það hefur lengi verið kallað eftir því að bændum verði gert kleift að slátra sauðfé og geitum á búunum sjálfum og dreifa á markaði. Undanfarin tvö ár hefur átt sér stað umfangsmikil vinna í samráði við bændur og Matvælastofnun við að leita leiða til að heimila þessa framleiðslu þannig að uppfyllt séu skilyrði regluverks um matvælaöryggi og gætt sé að dýravelferð og dýraheilbrigði. Þessi breyting sem við gerum í dag markar því tímamót enda felst í þessari breytingu mikilvægt tækifæri til að styrkja verðmætasköpun og afkomu bænda til framtíðar.“

Síðastliðið sumar undirrituðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda samkomulag um tilraunaverkefni um heimaslátrun.  Á heildina litið gekk verkefnið vel og voru niðurstöður úr sýnatökum bænda góðar, en fjareftirlit var erfiðleikum bundið. Í reglugerðinni er því kveðið á um að opinberir dýralæknar sinni heilbrigðisskoðunum bæði fyrir og eftir slátrun og mun kostnaður vegna þess greiðast úr ríkissjóði.  

Helstu atriði reglugerðarinnar: 

  • Sérstakar undanþágur vegna slátrunar og stykkjunar í samræmi við kröfur Evrópuregluverksins, s.s. lágmarkskröfur til húsnæðis og aðstöðu.  
  • Kveðið er á um kröfur við aflífun, hollustuhætti við slátrun, innra eftirlit og förgun aukaafurða dýra.  
  • Til að auðvelda bændum að nýta sér þessa heimild þá hefur Matvælastofnun útbúið leiðbeiningabækling á grundvelli reglugerðarinnar þar sem skýrð eru út helstu skilyrði sem gerð eru til slátrunar og stykkjunar í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum. Leiðbeiningar Matvælastofnunar má finna hér 

Reglugerðin er einnig liður í aðgerðaráætlun til eflingar íslensks landbúnaðar í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Með því að gera bændum kleift að framleiða og selja afurðir beint frá býli má styrkja verðmætasköpun og afkomu þeirra fyrir næstu sláturtíð. Með þessu er einnig stuðlað að frekari fullvinnslu, vöruþróun, varðveislu verkþekkingar og menningararfs við vinnslu matæla. 

Aðalfundur GFFÍ 19. maí 2021 fjarfundur

Aðalfundur Geitfjárræktarfélagsins 19. maí 2021 mun verða fjarfundur. Þátttakendur vinsamlega tilkynnið þáttöku í geit@geit.is til að fá fjarfundarhlekkinn sendan.

Fyrir fundinn verða tvö erindi sem að varða geitabændur: Dominique Pledél Jónsson kynnir Slow Food verkefnið sem geitabændur eiga hlut að og Ólafur Reykdal og Óli Þór Hilmarsson hja Matís kynna nýja reglugerð um heimaslátrun.

Eftir kynninguna verða venjuleg aðalfundarstörf. Laus eru tvö sæti í aðalstjórn og eitt sæti varamanns.

Frestað um óákveðinn tíma: Aðalfundur Geitfjárræktarfélags Íslands 2021

Vegna aukinna Covid19 smita hefur aðlfundi félagsins verið frestað um óákveðiðnn tíma. Aðalfundur GFFÍ verður haldinn laugardaginn 10. apríl kl. 14 að Hrísafelli í Helgafellssveit. Hrísafell er gestastofa og afurðavinnsla Sifjar Matthíasdóttur og Jörundar Svavarssonar geitabænda í Hrísakoti. Venjuleg aðalfundarstörf. Laus eru tvö sæti í aðalstjórn og eitt sæti varamanns. Félagsmenn hvattir til að mæta sem og nýjir félagar. Nánari upplýsingar veitir formaður Anna María Flygenring 7746034. Hrísafell er staðsett þar sem fáninn er á landakortinu. Heimreiðin er merkt.

Ný stjórn GFFÍ 2020-21

Formaður Anna María Flygenring.

Guðni Ársæll Indriðason gjaldkeri

Þorsteinn E. Þorsteinsson ritari

Birna Kristín Baldursdóttir og Guðný Ívarsdóttir meðstjórnendur.

Varamenn: Bettina Wunsch og Sif Matthíasdóttir.

Aðalfundur Geitfjárræktarfélags Íslands 2020

Aðalfundur Geitfjárræktarfélags Íslands 2020 laugardaginn 24.okt. kl. 15
Á undan fundinum kl. 14 verður kynning frá Ólafi Reykdal og Óla Þór Hilmarssyni hjá Matís um samstarfsverkefnið Vöruþróun geitfjárafurða, kjötmat og jafnvel fleira, þeir munu síðan svara fyrirspurnum.
Aðalfundurinn laugardaginn 24. október 2020 kl.15.

Fjarfundur á Zoom. 


Félagar fá sendan hlekk á fundinn en til þess að fá hlekk þarf að tilkynna þátttöku á netfang formanns annaflyg@gmail.com

Venjuleg aðalfundarstörf.

Óskað er eftir framboðum til stjórnar GFFÍ:
Laust er sæti formanns, kosið til eins árs í senn.
Laus eru tvö sæti í aðalstjórn til tveggja ára.
Laust er eitt sæti varamanns til tveggja ára.
Laust er sæti skoðanda reikninga til tveggja ára.
Stjórnin.

Þróun geitfjárafurða til framtíðar

Verkefni um þróun geitfjárafurða á vegum Matís með þátttöku 5 geitabænda og styrkt af Framleiðnisjóði er lokið og gengið hefur verið frá lokaskýrslu og dreifiblaði.

Sjá frétt um verkefnið hér

Dreifiblaðið geta þeir sem framleiða geitamatvörur notað til kynninga. Frjálst að prenta út og dreifa eða nota rafrænt.