Einstakt tækifæri fyrir félaga í GFFÍ: Vöruþróunarverkefni ykkur að kostnaðarlausu Umsóknarfrestur 29. apríl 2019

Fengist hefur styrkur úr Framleiðnisjóði og sérfræðingar hjá Matís leiðbeina bændum um þróun matvöru og markaðssetningu. Framleiðsluferlið og kröfur til matvælaframleiðslu verða leikur einn eftir námskeiðið. Ef meta á verkefnið til fjár myndi það slaga upp í hálfa milljón kr á mann.

Matís og Geitfjárræktarfélag Íslands auglýsa eftir þátttöku geitabænda, 
félaga í GFFÍ, í vöruþróunarátaki sem miðar að því að framleiða nýjar 
matvörur úr þeim hráefnum sem íslenska geitin leggur til. Áhersla verður 
lögð á nýjungar sem verða framleiddar vítt og breitt um landið fyrir 
neytendamarkað og / eða sölu beint frá býli. Vöruþróunarátakið er hluti 
af verkefninu Þróun geitfjárafurða til framtíðar en það er styrkt af 
Framleiðnisjóði landbúnaðarins 2019.

Markmiðið er að stuðla að framleiðslu afurða sem auka eftirspun eftir 
geitaafurðum og verða þannig drifkraftur fyrir fjölgun í geitastofninum. 
Erfðanefnd landbúnaðarins hefur ályktað að framtíð íslenska 
geitastofnsins byggist fyrst og fremst á því að hann verði nýttur.

Geitabændur geta sótt um þátttöku með því að fylla út umsóknareyðublað 
sem má finna hér. Útfyllt eyðublað skal senda á undirritaða starfsmenn 
Matís fyrir 29. apríl 2019. Starfsmennirnir svara fyrirspurnum símleiðis 
og í tölvupósti. Þann 24. apríl nk. kl 15:00 verður kynningarfundur um 
vöruþróun fyrir geitabændur hjá Matís Vínlandsleið 12 í Reykjavík. Fyrst 
verða starfsmenn Matís með almenna kynningu en síðan gefst einstökum 
aðilum kostur á að hitta starfsmenn Matís einslega og ræða hugmyndir 
sínar.

Starfsmenn Matís þurfa að velja úr innsendum tillögum og verða valdir 
a.m.k. 5 aðilar. Aðstoð starfsmanna Matís mun síðan felast í ráðgjöf við 
fyrstu skrefin, sérfræðiráðgjöf við vöruþróun, aðgang að fræðsluefni 
(sem þyrfti annars að greiða fyrir), mælingar á öryggi vörunnar og 
næringargildi, og loks ráðgjöf við merkingar og markaðssetningu. Gert er 
ráð fyrir að vöruþróunin hefjist í maí og verði lokið í nóvember 2019. 
Fyrir lok júní þurfa að vera komnar skýrar áætlanir eða fyrstu vörur. 
Nánari upplýsingar veita Óli Þór Hilmarsson (olithor@matis.is, 858-5099) 
og Ólafur Reykdal (olafurr@matis.is, 858-5098) hjá Matís.